Leita í fréttum mbl.is

Öldruðum í bið eftir hjúkrunarrými fjölgar um 63%

Grein okkar Hrafns Magnússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, í Morgunblaðinu í dag er ætlað að vekja athygli á mikilvægi þess að uppbygging hjúkrunarheimila fái forgang eftir kyrrstöðu og aðgerðaleysi síðustu ríkisstjórna. Að hjúkrunarrýmum hafi einungis fjölgað um 69 frá 2020 á sama tíma og 80 ára og eldri fjölgaði um 1.682 er skelfilega slakur árangur. Aldraðir á biðlistum binda vonir við að núverandi ríkisstjórn takist að gjörbreyta vinnubrögðum í málaflokknum. Að sjá félagsmálaráðherrann með sleggjuna á lofti niðri við flugvöll gefur góðar vonir um að loksins sé kominn hreyfing á hlutina. Greinin fer hér á eftir:Grein - Oldrudum i bid - mynd

Ekki hefur verið skrifuð sú skýrsla á liðnum áratugum um aðbúnað aldraðra þar sem ekki hefur verið bent á fyrirsjáanlega fjölgun þeirra og mikilvægi þess að að fjölga dvalar- og hjúkrunarrýmum. Eins og sjá má á meðfylgjandi súluritum er fjarri lagi að tekist hafi að halda í horfinu og hvað þá að fjölga hjúkrunarrýmum svo nokkru nemur meðan öldruðum fjölgar ár frá ári og vistunarvandinn vex. Almennum hjúkrunarrýmum á hverja 1.000 landsmenn 80 ára og eldri hefur fækkað um 7,2% frá 2019. Á sama tíma hefur öldruðum sem bíða eftir hjúkrunarrými fjölgað um 63%.

Skorturinn á hjúkrunarrýmum fer vaxandi þrátt fyrir afdráttarlausa stefnu heilbrigðisyfirvalda um að „fólk búi heima eins lengi og mögulegt er. Þegar það er ekki lengur hægt þrátt fyrir stuðning, getur fólk sótt um færni- og heilsumat til að láta meta þörfina fyrir dvöl til langframa í hjúkrunarrými.“ Á mannamáli; að eldri borgarar geti þá fyrst sótt um hjúkrunarrými að þeir séu ófærir um sinna eigin persónulegustu þrifum. Forsenda þess að komast á biðlistann er að eiga ekki börn eða nákomna ættingja sem geta tekið að sér verkið.

En hvernig er staðan í dag og hvert stefnir. Á framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarrýma og framhald til ársins 2028 frá í nóvember s.l. er gert ráð fyrir að tekin verði í notkun 231 nýtt hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2025. Þegar liggur fyrir að áætlunin er fjarri því að standast. Auk 64 nýrra hjúkrunarrýma í Boðaþingi sem nýlega voru tekin í notkun gerir áætlunin ráð fyrir 67 rýmum í Sóltúni sem fyrirsjáanlega verða ekki tekin í notkun fyrr en 2027 að sögn félags- og húsnæðismálaráðherra sem tók fyrstu skóflustunguna í vor. Jafnfram gerir áætlunin ráð fyrir 100 nýjum hjúkrunarrýmum í Urðarhvarfi 16. Þar er grunnurinn risinn að átta hæða byggingu sem örugglega verður ekki tekin í notkun á þessu ári. Líklegri tímasetning er 2027 til 2028.

Ljóst er að í algert óefni stefnir á allra næstu árum verði ekki gert stórátak í byggingu hjúkrunarheimila. Þær fyrirætlanir sem framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir duga hvergi nærri til. Jafnvel þó tekist hefði að standa við áætlunina en langur vegur er frá því eins og ofanritað ber með sér. Áhugavert var að hlýða á stefnuræðu forsætisráðherrans þar sem fram kom að hjúkrunarrýmum verði fjölgað ÁFRAM. Og ekki síður að lesa í grein þingflokksformanns Flokks fólksins 13.9. s.l. að MIKILL SKRIÐUR hafi komist á uppbyggingu hjúkrunarheimila. Þar sem forsætisráðherrann og þingflokksformaðurinn geta ekki verið að vísa til löngu tekinnar ákvörðunar um stækkunina í Boðaþingi bíða aldraðir og aðstandendur í ofvæni eftir nánari upplýsingum um hvar hjúkrunarrýmin sem vísað er til eru staðsett og hvenær gert er ráð fyrir að þau verði tekin í notkun.Fjoldi almennra hjukrunarr og i bid


Bloggfærslur 23. september 2025

Höfundur

Þorgeir Eyjólfsson
Þorgeir Eyjólfsson

Höfundur er eftirlaunaþegi

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband