18.2.2024 | 01:39
Hversu lengi ætlar ríkisstjórnin að horfa aðgerðalaus á tugi ótímabærra dauðsfalla í mánuði hverjum?
Samkvæmt tölum landlæknis reyndist fjöldi dauðsfalla í desember s.l. vera 11,2% umfram meðaltal áranna 2016 til 2019 að teknu tilliti til mannfjöldaþróunar. Alls urðu ótímabæru dauðsföllin á fjórða ársfjórðungi 42 samanborið við 31 á þriðja ársfjórðungi. Þeim fjölgaði því um 36% á milli ársfjórðunga. Þessa fjölgun dauðsfalla er erfitt að skýra án þess að nefna covid mRNA bóluefnin sem hugsanlegan áhrifaþátt. Sú ákvörðun sóttvarnalæknis að hefja bólusetningar að nýju gegn covid í október eftir hlé frá í apríl sýnist hafa verið misráðin. Skaðinn af völdum efnanna á heilsu bólusettra mun halda áfram að koma í ljós á næstu mánuðum og misserum.
Evrópska hagfræðistofnunin Eurostat birtir mánaðarlega tölur um umframdauðsföll á Evrópska efnahagssvæðinu. Tölur Eurostat taka ekki tillit til mannfjöldaþróunar einstakra landa svæðisins. Engu að síður gefa þær góða hugmynd um þróun dauðsfallanna í samanburði landa. Samkvæmt tölum Eurostat voru umframdauðsföll í desember á Íslandi 25,2% og reyndust þau hæstu í Evrópu. Á meðfylgjandi súluriti sýna rauðu súlurnar þróun umframdauðsfalla á Íslandi eftir mánuðum á síðasta ári og bláu súlurnar meðaltal 27 landa ESB.
Raunalegt hefur verið að fylgjast með endurteknum tilraunum embættis landlæknis til að tala niður og breiða yfir umframdauðsföllin með vísan til mannfjöldaþróunar. Mismunandi aðferðafræði við útreikning umframdauðsfalla fækkar ekki dauðsföllunum. Ekki skiptir máli hvort horft er á tölur landlæknis eða Eurostat. Báðar reikniaðferðir staðfesta skelfilegan fjölda ótímabærra dauðsfalla.