2.6.2024 | 08:34
Tekist hefur að telja fjölda látinna á Íslandi í mars
Athygli vakti þegar Ísland reyndist eina landið í Evrópu sem ekki hafði náð að taka saman upplýsingar um fjölda látinna í mars mánuði fyrir Evrópsku hagfræðistofnunina (Eurostat) sem birtar voru 16.5. s.l. Upplýsingar um fjölda látinna í mars mánuði hafa nú verið birtar á vef Embættis landlæknis. Skelfileg þróun umframdauðsfalla heldur áfram á Íslandi og virðist ekkert lát á. Klippan af vef landlæknis sýnir að umframdauðsföllin í mars voru hærri en í janúar á þessu ári þegar þau voru með hæsta móti.
Eurostat hlutföllin um umframdauðsföllin eru hærri en landlæknis þar sem ekki er tekið tillit til þróunar mannfjöldans við útreikningana. Þegar tölur Eurostat hafa verið uppfærðar með upplýsingum um fjölda látinna í mars s.l. mun koma í ljós að Ísland heldur vafasömu toppsæti meðal Evrópuþjóða með fjölda látinna umfram það sem gera hefði mátt ráð fyrir miðað við reynslu áranna 2016 til 2019.
Í raun skiptir ekki hvort horft er á tölur Eurostat eða landlæknis. Ólík aðferðafræði við útreikninginn breytir í engu þeirri staðreynd að fjöldi Íslendinga mætir ótímabærum dauðdaga í mánuði hverjum.