8.6.2024 | 05:55
Fæðingum fækkar á fyrsta ársþriðjungi um 5,8%
Línuritið sýnir samanburð á þróun fjölda fæðinga á Íslandi frá árinu 2019 og þróun fjölda kvenna á aldrinum 15 til 44 ára yfir sama tímabil. Þar sem Hagstofa Íslands hefur ekki enn birt tölur um fæðingar á árinu 2023 er notast við tölur úr starfsemisupplýsingum Landspítala fyrir árið 2023 og fyrstu 4 mánuði ársins 2024 sem sýna 5,8% fækkun fæðinga á spítalanum miðað við sömu mánuði 2023. Að notast við tölur spítalans til að áætla fjölda fæðinga á landinu öllu er gerlegt þar sem fæðingar á spítalanum hafa haldist hlutfallslega af heildarfjölda fæðinga á landinu um margra ára skeið.
Glöggt má greina á línuritinu hvernig lokanir og fjarvinna á fyrstu misserum covid, fyrir tilkomu bóluefnanna, leiðir til fjölgunar fæðinga. Eftir tilkomu bóluefnanna 2021 tekur fæðingum að fækka. Fækkunin var í fyrstu talin eðlileg afleiðing fyrri fjölgunar þar sem barneignum hafði verið flýtt. Haldreipi heilbrigðisyfirvalda í þeirri skýringu er ekki lengur til staðar. Fækkun fæðinga í kjölfar covid bólusetninga er ekki einskorðuð við Ísland. Hliðstæða þróun má sjá í tölum um fæðingar víða um heim.