11.6.2024 | 16:45
Afdrifarík ákvörðun
Eins og línuritið úr farsóttaskýrslu fyrrverandi sóttvarnalæknis vegna ársins 2020 ber með sér er ljóst að alvarlegra veikinda af völdum Covid var að mestu hætt að gæta þegar leið að lokum ársins 2020. Fimm til sex einstaklingar voru á sjúkrahúsi vegna Covid og enginn þeirra á gjörgæslu. Því var ekki tilefni til að taka áhættuna af fjöldabólusetningu landsmanna með lítt reyndu tilraunabóluefni. Hvað þá að bólusetja unga og heilbrigða eða barnshafandi einstaklinga.
Að ekki væri knýjandi þörf fyrir bóluefnin lá fljótlega fyrir í klínísku rannsóknarferli bóluefnanna sem hespað var af í fljótheitum á nokkrum mánuðum 2020. Þátttakendur í klínískum tilraunum Pfizer með bóluefnið voru 43.448 að tölu, 21.720 fengu bóluefnið en 21.728 lyfleysu. 170 þátttakenda eða 0,4% fengu Covid-19 (162 í lyfleysuhópnum). Af þessum 170 sem greindust með Covid-19 varð lítt vart mikilla veikinda. Alvarlegar aukaverkanir greindust hjá fáum þátttakenda og voru svipaðar að fjölda í báðum hópum.
Pfizer tilraunin með mRNA efnið leiddi í ljós að af Covid-19 stafaði ekki mikil hætta. Fáir smituðust af sjúkdómnum og sóttin lagðist ekki af þunga á þá sem veiktust. Sérfræðingum í sóttvörnum hefði því mátt vera ljóst þegar leið á árið 2020 að svigrúm var til staðar til að ganga tryggilega úr skugga um öryggi tilraunabóluefnisins. Þegar línurit farsóttaskýrslunnar eru skoðuð við áramótin 2020/2021 er erfitt að sjá rökstuðning fyrir fjöldabólusetningum á Íslandi.