Leita í fréttum mbl.is

Ágæti forsætisráðherra!

Í samanburði Evrópuþjóða var Ísland með annað hæsta hlutfall umframdauðsfalla á árinu 2022 og í efsta sæti þjóðanna með hæsta hlutfallið 2023. Við útreikninginn hefur verið tekið tillit til mismunandi aldurssamsetningar þjóðanna. Þar sem 2.500 Íslendingar látast að jafnaði á ári hverju endurspeglar 3,7% hlutfall umframdauðsfalla ótímabær andlát liðlega 90 einstaklinga á árinu 2023. Dánarmeinaskrá landlæknis 2023 upplýsir 47 dauðsföll af völdum Covid-19 á árinu og 4 dauðsföll af völdum Covid tilraunabóluefnanna og því liggur fyrir að liðlega 40 landsmenn hafa látist fyrir aldur fram af öðrum ástæðum.Umframdánartíðni Evrópulanda 22 og 23

Að loknum þriðja ársfjórðungi 2024 hafði dauðsföllum fjölgað um 2,9% frá sama tíma fyrra árs. Þar sem hlutfallsleg fjölgun landsmanna, samkvæmt tölum Hagstofunnar, mun ekki halda í við fjölgun látinna stefnir í hækkaða dánartíðni frá fyrra ári og að umframdauðsföllin verði nálægt 100. Þar sem landlæknir hafði eftir 9 mánuði skráð 16 andlát af völdum Covid-19 hafa fleiri en 80 landsmenn mætt ótímabærum dauðdaga á nýliðnu ári af öðrum orsökum en Covid-19.

Það ætti að vera forsætisráðherra tilefni til íhugunar að dánartíðni ársins 2024 verði jafnhá og 2023. Að Ísland verði þriðja árið í röð meðal þeirra þjóða Evrópu sem flest hafa umframdauðsföllin. Við hvetjum forsætisráðherra til að láta kanna ástæður umframdauðsfallanna sem hljóta að eiga sér fleiri skýringar en leiðir af notkun mRNA Covid bóluefnanna sem rannsóknir sýna að hafa valdið miklum skaða á heilsu almennings og leitt til andláts fjölda Íslendinga fyrir aldur fram.

Forsætisráðherrann þarf að vera þess meðvituð að einungis er tímaspursmál hvenær næsti faraldur brestur á. Reyndar eru teikn á lofti um að það kunni að verða fyrr en seinna. Það ætti að vera nýjum forsætisráðherra og ríkisstjórn kappsmál að fækka umframdauðsföllunum sem óhjákvæmilega munu fylgja. Það mun forsætisráðherra ekki takast dragi stjórnendur heilbrigðiskerfisins ekki lærdóm af því sem aflaga fór við sóttvarnir á síðustu misserum.

Ísland er í hópi þeirra þjóða sem hvað styst eru á veg komin í að taka umræðuna og aflétta þögguninni um skaðsemi tilraunaefnanna. Tilkoma nýrra stjórnenda heilbrigðiskerfisins vestra og endurskoðun starfshátta sóttvarna- og lyfjaeftirlitsaðila þar í landi gagnvart lyfjaframleiðendum marka kaflaskil og munu væntanlegar breytingar leiða til opnari umræðu og hafa áhrif á starfshætti eftirlitsaðila í Evrópu. Ríkisstjórninni ætti að vera ljóst mikilvægi þess að marka við upphaf starfsferils skýr skil á milli fyrri ákvarðana um sóttvarnir sem skipað hafa þjóðinni í hóp þeirra landa þar sem hvað verst hefur til tekist. Eina leiðin fyrir ríkisstjórnina til að sitja ekki uppi með ábyrgðina á ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar um sóttvarnir þegar líða fer á kjörtímabilið er að hrinda nú þegar í framkvæmd athugun á því sem aflaga hefur farið.

Þar sem fyrrverandi landlæknir er tekinn við sem ráðherra heilbrigðismála þarf forsætisráðherrann að taka tillit til skorts ráðherrans og undirmanna á hæfi til að leiða athugunina. Það sama á við um hæfi stjórnenda Embættis landlæknis og ráðgjafa. Vonandi ber forsætisráðherra gæfu til að láta kanna ástæður hundraða ótímabærra dauðsfalla landsmanna á síðustu árum svo læra megi af reynslunni og með þeim hætti fækka alvarlegum veikindum og dauðsföllum meðal landsmanna þegar næsti faraldur gengur yfir.

Höfundar:

Þorgeir Eyjólfsson eftirlaunaþegi

Helgi Örn Viggósson hugbúnaðarsérfræðingur


« Síðasta færsla

Höfundur

Þorgeir Eyjólfsson
Þorgeir Eyjólfsson

Höfundur er eftirlaunaþegi

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband