14.3.2025 | 15:45
Löggjöf um dánaraðstoð í farvatninu hjá Bretum
Eftir nefndarmeðferð frumvarps í breska þinginu sem heimilar dánaraðstoð er ekki lengur gert ráð fyrir aðkomu dómara að ákvörðun um dánaraðstoð eins og frumvarpið gerði þegar því var vísað til nefndar. Talið er að heimild tveggja lækna án aðkomu dómara til dánaraðstoðar muni fjölga þeim einstaklingum sem nái að nýta sér úrræðið. Þeir sem hafa efasemdir um réttmæti heimilda til dánaraðstoðar vísa gjarnan til þróunarinnar í Kanada um hvert kunni að stefna ef dánaraðstoð verður heimiluð að lögum. Í Kanada var dánaraðstoð (medical assistance in dying - MAID) heimiluð 2016 fyrir einstaklinga sem haldnir voru banvænum sjúkdómi. Heimildin var rýmkuð 2021 og er ekki lengur gerð krafa um að sjúkdómurinn sé banvænn auk þess sem öryrkjum var gert mögulegt að nýta ákvæðið samkvæmt nánari reglum. Að óbreyttu mun andlega sjúkum gert kleift að njóta dánaraðstoðar í Kanada frá mars 2027. Kannanir sýna helming þjóðarinnar hlynntan frekari rýmkun heimilda. Jafnvel að nái til ástæðna fátæktar eða heimilisleysis. Á árinu 2023 er talið að MAID hafi náð til 5% dauðsfalla, eða 15.300 af 320.000. Áætlað er að taki svipaðar reglur og í Kanada gildi í Englandi og Wales muni á bilinu 6.000 til 17.000 einstaklinga nýta sér heimild til dánaraðstoðar árlega. Árlega látast liðlega 2.500 Íslendingar og því ljóst að Kanadískt fyrirkomulag hérlendis gæti leitt til dánaraðstoðar yfir 100 einstaklinga.
Samkvæmt heimasíðu Lífsvirðingar er dánaraðstoð heimil að lögum í átta Evrópulöndum; Sviss, Hollland, Belgía, Lúxemborg, Þýskaland, Spánn, Austurríki og Portúgal. Dánaraðstoð er leyfð í 11 fylkjum Bandaríkjanna ásamt Kólumbíu, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjáland, Kúbu og Ekvador. Viðhorf Íslendinga til dánaraðstoðar var kannað af Maskínu fyrir Siðmennt fyrir 10 árum með spurningunni: Ert þú hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn banvænum sjúkdómi (líknandi dauði)?. Þá voru 75% hlynntir, 7% andvígir en 18% óákveðnir. Stuðningur almennings við dánaraðstoð hefur haldist óbreyttur frá 2015 í þremur könnunum sem framkvæmdar voru á árunum 2019, 2022 og 2023. Stuðningur bæði lækna og hjúkrunarfræðinga hér á landi hefur farið vaxandi við dánaraðstoð.
Í greinargerð með þingsályktunartillögu sem lögð var fram á Alþingi 8.2. s.l. þar sem heilbrigðisráðherra er falið að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga sem heimili dánaraðstoð kemur fram að hliðstæðrar viðhorfsbreytingar til dánaraðstoðar gæti meðal heilbrigðisstarfsmanna í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og hér á landi. Upplýsingar um viðhorf heilbrigðisstarfsmanna í Danmörku til dánaraðstoðar liggur ekki fyrir samkvæmt greinargerðinni. Í greinargerðinni er lögð áhersla á mikilvægi strangra skilyrða sem forsendu dánaraðstoðar og vísað í þeim efnum til Hollenskra forsendna sem þykja ströng.