17.4.2025 | 12:11
Grænlendingar brosa í kampinn
Áhugavert er að fylgjast með íslenskum stjórnmálamönnum lýsa hneykslan sinni á áhuga forseta USA á Grænlandi. Lítið hefur komið fram um áform forsetans annað en að Grænlendingar sjálfir komi á endanum til með að ákveða hvort þeir vilji sjá breytingar á núverandi ríkjasambandi við Danmörk og þá hvers konar framtíðarsýn grænlenska þjóðin telur landinu hagfelldust. Að þessi hugleiðing er fest á blað helgast af samtali okkar hjóna við grænlenskt háskólamenntað par sem við deildum kvöldverðarborði með á ferðum okkar nýverið. Talið barst að Trump og áhuga á að eignast Grænland með bandaríska öryggishagsmuni og ef til vill einhverja aðra hagsmuni í huga. Grænlenska parið fagnaði áhuga forsetans á landinu. Sögðu þau engan einstakling hafa gert grænlensku þjóðinni jafn mikinn greiða og Trump hefði gert með yfirlýsingum sínum. Honum hefði tekist að vekja Dani af værum blundi kyrrstöðu um málefni landsins. Ekki hefði verið vanþörf á. Jafnframt hefði nýju lífi verið blásið í umræðu um sjálfstjórn Grænlands. Sögðu þau grænlensku þjóðina í þakkarskuld við Trump vegna endurvakins áhuga og umhyggju Dana á málefnum og velferð Grænlendinga. Jákvæð áhrif af afskiptum forsetans af málefnum Grænlands virðast hafa farið fram hjá íslenskum stjórnmálamönnum.