7.7.2025 | 07:11
Að pissa í skóinn sinn
Hvernig heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlækni er fyrirmunað að leysa úr vandamálum sem hlaðist hafa upp á skrifborði hennar sem landlæknis á liðnum árum sjást víða merki. Ein birtingarmynd slakrar stjórnunar sést á efnistökum hennar gagnvart Geðheilsumiðstöð barna (GMB) þar sem metfjöldi barna eða 2.500 börn bíða eftir ADHD- eða einhverfugreiningu. Sem fyrrverandi landlæknir hefur Alma horft í aðgerðarleysi á biðlista barna eftir þjónustu GMB lengjast ár frá ári frá stofnun 2022 án þess að bregðast við með nokkrum hætti. Það var ekki fyrr en 7. febrúar á þessu ári að ráðherra taldi sig ekki lengur komast hjá að veita auknu fjármagni til GMB sem dugði til fjölgunar stöðugilda um tvö. Svo stór var þessi rausnarlega ákvörðun að Alma lét sérstaklega hafa eftir sér í tilkynningu á vef stjórnarráðsins að með henni væri verið að stytta bið barna eftir mikilvægri þjónustu og setja geðheilbrigðismál í forgang. Öllum sem til þekktu vissu að þessi aðgerð myndi litlu sem engu breyta og þarna væri fyrrverandi landlæknis enn og aftur að pissa í skóinn sinn. Fimm mánuðum síðar greinir yfirlæknir GMB frá því að í þvílíkt óefni sé komið að helsta úrræði stofnunarinnar til lausnar vandanum sé að vísa börnum og foreldrum þeirra frá.