3.9.2025 | 18:56
Að raska hagsmunum risanna er ekkert grín
Ferðist menn til Bandaríkjanna komast þeir ekki hjá að sjá auglýsingar lyfjaframleiðenda á lyfseðilskyldum lyfjum í prentmiðlum, sjónvarpi, útvarpi og í vaxandi mæli á samfélagsmiðlun. Að leyft sé að auglýsa lyfseðilskyld lyf þekkist hvergi í heiminum annars staðar nema á Nýja Sjálandi. Talið er að amerískir neytendur sjái að meðaltali 9 auglýsingar daglega, eða sem svarar til 16 stunda áhorfs á ári. Fjármunirnir sem lyfjaframleiðendur verja til auglýsinga voru samkvæmt JAMA (Journal of the American Medical Association) rannsókn frá 2019 innan við helmingur þess sem framleiðendurnir notuðu 2016 til markaðssetningar lyfja. Meirihlutinn fer eftir ýmsum leiðum til heilbrigðisstarfsfólks. Lyfjaframleiðendur vörðu $388 milljónum (48 milljörðum ISK) í hagsmunagæslu gagnvart þinginu og samanlagt frá 1998 6,3 milljörðum dollara. Fjármununum er varið til að hafa áhrif á og koma í veg fyrir lagabreytingar sem kynnu að hafa neikvæð áhrif á afkomu lyfjaframleiðenda. Nýleg dæmi um notkun fjármunanna má sjá á stöðu þriggja frumvarpa sem lögð voru fram á árinu 2025 um bann við auglýsingum lyfseðilskyldra lyfja sem virðast hafa verið svæfð í nefnd. 48 milljarðar ISK varið til hagsmunagæslu eru smámunir þegar auglýsingakostnaðurinn í fyrra nam 2.418 milljörðum íslenskra króna borið saman við 1.545 milljarða fjárlög íslenska ríkisins fyrir 2025 og söluverðmæti lyfjanna nemur 99.630 milljörðum á ári sem eru 64föld íslensku fjárlögin. Að raska í einhverju þessum miklu hagsmunum er ekki auðhlaupið fyrir heilbrigðisráðherrann. En hugsanlega verður honum eitthvað ágengt með traustum stuðningi forsetans.